Í febrúar hin síðustu ár höfum við í Landakirkju breytt heldur út af vananum við messugjörð og ýmis þemu dregin upp í guðsþjónustum á sunnudögum. Þær tilbreytingar halda áfram nú í ár en verða þó ögn hefðbundnari en áður.

Um þessar mundir er ný handbók presta í smíðum en hún hefur að geyma leiðbeiningar við messugjörð og aðrar athafnir kirkjunnar, ritningartexta og bænir fyrir hvert tilefni. Samhliða nýrri handbók er almenn messugjörð í endurskoðun og eru nokkrar tillögur í þeim efnum til skoðunar sem prestar landsins eru hvattir til að prófa áður en bókin kemur út.

Landakirkja ætlar að nýta febrúarmánuð í þessa tilraunastarfsemi og því verður messugjörð með öðru sniði næstu helgar.

Á sama tíma og prestar gefa endurgjöf til handbókarnefndar um reynslu af helgihaldinu viljum við hvetja þá sem sækja messu í febrúar að gefa sína endurgjöf og upplifun af messunum. Hver messa verður kynnt sérstaklega í upphafi hverrar messu.

Sjáumst í (tilrauna)kirkjunni okkar í febrúar