Sr. Karl Sigurbjörnsson biskup er látinn. Hann lést í fyrradag.
Sr. Karl er Eyjamönnum kunnur en hann var vígður til þjónustu við Eyjamenn í gosinu og þjónaði Vestmannaeyingum árin 1973-1974. Þar á eftir var hann skipaður sóknarprestur í Hallgrímsprestakalli þar sem hann þjónaði fram til ársins 1998 þegar hann var kjörinn biskup Íslands. Biskupstíð hans spannaði 14 ár.
Störf Karls í þágu Þjóðkirkjunnar og kristni í landinu eru ómetanleg. Eftir hann liggur fjölda verka, bæði frumsamin og þýdd. Þá gegndi hann einnig mörgum trúnaðarstörfum fyrir Þjóðkirkjuna, var í stjórn Prestafélags Íslands og var einnig á kirkjuþingi og í kirkjuráði. Þá var hann einnig skipaður heiðursdoktor við Háskóla Íslands.
Hann heimsótti Vestmannaeyjar reglulega og var ljóst að tími hans hér og Vestmannaeyjar voru honum ofarlega í huga. Eyjafólk kynntist dyggri þjónustu hans, góðu hjarta og glettnum húmor.
Sóknarnefnd, prestar og starfsfólk Landakirkju vottar fjölskyldu sr. Karls samúð sína. Guð blessi minningu hans.