Um hádegi í dag var gefin út tilskipun stjórnvalda um samkomubann sem tekur gildi á miðnætti þann 15. mars næstkomandi. Fljótlega sendi biskup Íslands út tilkynningu þess efnis að allt messuhald og vorfermingar falla niður innan Þjóðkirkjunnar. Er sú ákvörðun tekin með almannaheill í húfi eins og segir í tilkynningu biskups.

Samkomubann hefur talsverð áhrif á starfsemi Landakirkju eins og allra annarra kirkna á Íslandi. Það er eðlilegt þar sem almannaheill er í húfi. Af þeim sökum fellur niður eftirfarandi starfsemi Landakirkju meðan samkomubann er í gildi;

Guðsþjónustur á sunnudögum

Sunnudagaskólinn

Fermingarfræðsla og fermingar

Helgihald dymbilviku og páska

Æskulýðsstarf kirkjunnar (TTT, 1T2 & 3T4 og ÆsLand)

Barnakórsæfingar

Fyrirhugaðar heimsóknir presta á Kirkjugerði

Varðandi aðrar athafnir kirkjunnar gilda viðmið samkomubannsins, t.d. hvað varðar hámarksfjölda, og verður það rætt við hlutaðeigandi hverju sinni. Vissulega er erfitt að grípa þurfi til þessara aðgerða en þar sem almannaheill er í húfi er það rétt og skynsamt.

Þrátt fyrir að ýmislegt falli niður af þessum sökum fellur kærleiksþjónusta kirkjunnar ekki niður og eru prestar Landakirkju sem fyrr reiðubúnir til viðtala og sálgæslu.

Við skulum beita skynsemi í gegnum þessa tíma og fylgja áfram fyrirmælum landlæknis í sóttvörnum. Enn fremur skulum við hafa í huga orð Páls postula:

„Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ – Róm 8:38-39