Helgihald og starf í Landakirkju verður með hefðbundnum hætti meðan sóttvarnalæknir gefur ekki út að samkomubann ríki í landinu. Það er mikilvægt að við pössum vel hvert annað, styðjum og hvetjum og hughreystum okkur sjálf og náunga okkar. Hjálpum þeim sem finna fyrir óöryggi og eru óttaslegin varðandi framtíðina.
Í ráðleggingum frá Barnaspítala Hringsins segir m.a. „Við leggjum áherslu á að nota skynsemi við ákvarðanir, láta óttann ekki ná tökum og fara að ráðleggingum sóttvarnalæknis. Þessi faraldur mun ganga yfir og best að takast á við þetta tímabundna ástand með yfirvegun og skynsemi að leiðarljósi. Einnig leggjum við áherslu á að vanda sig í allri umfjöllun um veiruna og varast að vekja óþarfa ótta hjá börnum og unglingum.“

Nokkur orð í jósi ferminga sem hefjast í næsta mánuði og áhættunnar af veirusmitum í margmenni. Við í kirkjunni fylgjumst vel með fréttum og skilaboðum frá Landlækni og Almannavörnum.

1. Ef það er ennþá hættuástand munum við ekki hafa altarisgöngur í fermingarathöfnunum og við tökum ekki í hönd fermingarbarna við ferminguna og prestur kveður söfnuðinn ekki með handarbandi við kirkjudyr að lokinni messu eins og venjulega.

2. Ef almannavarnir gefa út bann við samkomum í landinu á þessum tíma þá verðum við að fresta fermingarathöfnunum og auðvitað fermingarveislum. Þetta myndi auðvitað skapa mikið rask en við erum fólk sem kunnum að bregðast við áföllum og mæta hindrunum. Við munum gera allt til að koma til móts við fermingarbörnin og fjölskyldur þeirra og eitt er víst að þau munu fá sína fermingu og fermingarveislu en við verðum samstíga Almannavörnum og Landlækni í þessum efnum.

3. Í fyrsta Jóhannesarbréfi þriðja kafla standa þessi orð: ,,Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.” Þetta eru góð orð. Í kringum okkur er aldraðir ástvinir og líka fólk með undirliggjandi sjúkdóma, nú er það okkar allra að vernda þetta samferðarfólk okkar sem eru í sérstökum áhættuhóp.

Bestu kveðjur frá prestum Landakirkju

Guðmundur Örn Jónsson & Viðar Stefánsson