Biblían á íslensku er nú aðgengileg öllum íslendingum á alþjóðlegu biblíuappi Youversion. Tilkoma snjalltækja felur í sér mikla samfélagsbreytingu og er stór hluti íslendinga með snjalltæki á sér flestar stundir. Þegar Biblían verður aðgengileg á slíku appi þá þýðir það að meirihluti íslendinga verður með rafrænan aðgang að Biblíunni í vasanum, allar stundir! „Það á eftir að veita mörgum styrk að geta gripið til Biblíunnar í símanum sínum, Biblían er þannig bók að ólíklegasta fólk leitar í hana á undarlegustu tímum – það sanna ótal dæmi,“ segir Guðmundur Brynjólfsson, verkefnastjóri Hins íslenska Biblíufélags.
Biblíuapp Youversion verður með íslensku viðmóti og þar verður hægt að nálgast Biblíuna á íslensku, notendum að kostnaðarlausu! Youversion biblíuappið mun bjóða upp á fjölda notkunarmöguleika sem gerir fólki m.a. mögulegt að til að tengjast samfélagsmiðlum og deila þar ritningarversum og öðru efni úr appinu. Þá verður, ennfremur, hægt að velja úr fjölbreyttum lestraráætlunum sem halda fólki við lesturinn, gera því kleift að tengjast öðru fólki sem er að nota appið, áherslumerkja ritningarvers, skrifa minnispunkta og bera saman þýðingar ólíkra tungumála.
Biblíuapp Youversion er það vinsælasta í heiminum og hefur verið hlaðið niður 300 milljón sinnum. “Það að íslendingar muni nú hafa aðgang að íslenskri þýðingu Biblíunnar á þessu appi mun hafa umbreytandi áhrif á biblíulestur í landinu, skapa rafrænt samfélag um biblíulestur og gera visku Biblíunnar fyrirferðarmeiri á samfélagsmiðlum. Það verður mjög spennandi að fylgjast með þeim áhrifum sem aðgangurinn að þessu biblíuappi mun hafa” segir sr. Grétar Halldór Gunnarsson, stjórnarmaður í Biblíufélaginu.
Með því að smella á hlekkinn hér að neðan má ná í þetta nýja og glæsilega app:
Fréttin er fengin af vef hins íslenska biblíufélags, biblian.is