Sl. föstudag var haldið vel heppnað og skemmtilegt fermingarmót þar sem fermingarbörn vorsins komu saman í söng, leik og fræðslu í Landakirkju. Svona mót er haldið árlega og er markmið þeirra að víkka sýn árgangsins á trúna á Guð föður, gefa þeim tæki til þess að eiga í samskiptum við Hann og kynnast hvert öðru á nýjan hátt. Gísli Stefánsson æskulýðsfulltrúi stýrði mótinu ásamt prestunum okkar, þeim sr. Guðmundi og sr. Viðari en þeim til fulltingis v0ru æskulýðsleiðtogarnir Ásta Guðrún Guðmundsdóttir og Pétur Ragnhildarson.

Dagurinn hófst með upphitun í söng og leikjum og að því loknu var fræðsla þar sem krakkarnir fóru í minni hópum milli stöðva. Þar fengu þau ýmiskonar fræðslur þar sem kristnin var tengd við daglegt líf. Að loknum hádegismat voru haldnir tveir fyrirlestrar, annars vegar um líf og starf Jesú og hins vegar undir yfirskriftinni „Þeir skora sem þora“, en markmið þess fyrirlestrar var að hvetja unga fólkið til að taka af skarið í lífinu og um leið að minna þau á að þau þurfa ekki að fara ein í gegn um verkefnin, Guð er alltaf á næsta leiti og tilbúinn til að hjálpa.

Eftir stórkostlega flatbökuveislu var foreldrum boðið til kvöldvöku þar sem söngur og skemmtun réð för. Að kvöldvökunni lokinni var helgistund með hugleiðingu í kirkjunni.