Einar Jakobsson og Guðný Charlotta Harðardóttir leika á trompeta forspil á páskadagsmorgun og gefa þannig tóninn í hátíðarguðsþjónustunni sem hefst kl. 8. Leika þau Overture eftir Telemann úr Water Music Suite. Kór Landakirkju syngur síðan inn páskagleðina með gömlum og nýjum páskasálmum um undur páskanna undir stjórn Kitty Kovács. Þannig hljómar lofsöngslag undir nýju hvelfingu kirkjunnar og páskagleðin ætti að seitla þaðan um söfnuð Drottins í Eyjum. Eftir hátíðarguðsþjónustuna býður sóknarnefndin til morgunverðar í Safnaðarheimilinu, rúnnstykki og vínarbrauð, ef við erum heppin.

Guð gefi ykkur gleðilega páska, upprisuhátíð Frelsarans!