Við upphaf kyrruviku voru fyrstu fermingar í Landakirkju á pálmasunnudag og daginn áður. Til hamingju, kæru fermingarbörn. Nú er kyrravika, vikan fyrir páska. Á seinni hluta kyrruviku eru dymbildagarnir: Skírdagur, föstudagurinn langi og hinn helgi laugardagur. Fastan nær hámarki.

Landakirkja fylgir þessum hrynjanda með kvöldmessu á skírdagskvöld kl. 20, 2. apríl. Þá er heilög kvöldmáltíð, afskrýðing altarisins og tignun krossins. Föstudaginn langa, 3. apríl, er guðsþjónusta kl. 11 með tónlist og kórverkum og lestri píslasögunnar. Mikið er lagt í þessar sérstæðu guðsþjónustur og eru Eyjamenn og gestir Eyjanna hvattir til að sækja þær.

Eftir helgan laugardag hefst páskahátíðin í Landakirkju með hátíðarguðsþjónustu kl. 8 árdegis og mikilli gleði, jafnvel páskahlátri. Eftir hátíðarguðsþjónustuna gleðjum við okkur saman yfir morgunverði í Safnaðarheimilinu í boði sóknarnefndar. Seinni hátíðarguðsþjónustan á páskadagsmorgni verður kl. 10.30 á Hraunbúðum.

Að þessari fjölbreyttu helgidagskrá koma Kór Landakirkju, organisti, fiðluleikari, félagar úr Leikfélagi Vestmannaeyja, sóknarnefnd, starfsfólk Landakirkju og prestar. Allar athafnir eru innan við klukkustund.

Dymbildagar draga nafn sitt af því að í stað kólfsins í kirkjuklukkunum var settur trébútur til að slá klukkuna. Hljómurinn varð dumpur og alls ekki hvellur einsog þegar járn slær járn.

Landakirkja óskar þér gleðilegra páska og innihaldsríkra daga á þessari mestu hátíð kristinna manna um allan heim, allt frá frumkristni til okkar daga. Það er óskandi að Eyjamenn haldi hátíðinni uppi með góðri kirkjusókn. Þeir sem eru fjarverandi vegna ferðalaga eru hvattir til að sækja kirkju þar sem þeir eru á ferð enda eru guðsþjónustur á svipuðum tíma mjög víða.

Gleðilega páska!