Allt kapp er nú lagt á að gera Landakirkju messuhæfa fyrir helgi þótt málningarvinnunni sé ekki lokið. Útför verður gerð frá kirkjunni á laugardaginn og svo verða barnaguðsþjónusta kl. 11 og guðsþjónusta kl. 14 sunnudaginn 25. janúar. Eyjamenn eru hvattir til að sækja guðsþjónusturnar til að sjá hvernig verkinu miðar áfram en hafa ber í huga að verkinu er ekki lokið.

Búið er að hvítlakka hvelfinguna en eftir er vinna við að lakka stjörnurnar og önnur tákn í gylltum lit. Flestir fletir veggjanna hafa verið lakkaðir alhvítir en þó ekki allir veggir. Veggirnir voru illa farnir og þurftu mikla viðgerð og margt smátt og stórt hefur verið lagað. Nýjar lagnir hafa verið lagðar í ofnana.

Haldið verður áfram að lakka kirkjuna eftir helgina og hún lokuð virka daga þar til þessum þætti endurbótanna er lokið.