Undanfarin ár hefur hópurinn Jólaperlur gefið alla sína vinnu við tónleika til styrktar Æskulýðsfélagi Landakirkju og KFUM&K í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyingar hafa verið gríðarlega duglegir að nýta sér þessa tónleika rétt fyrir jólin til þess að vinna á jólastressinu, alltaf er fullt hús í Safnaðarheimilinu og hafa þessir tónleikar því verið kærkomin viðbót í listalíf í Eyjum í tengslum við hátiðarnar. Safnast hefur í sjóði og hefur þessi viðbót fyrir æskulýðstarfið hjálpað því að dafna eins og mögulegt er. Stuðningur við leiðtogastarf á vegum félagsins hefur aukist svo um munar, sem og að létt hefur verið undir með ferða- og mótskostnaði leiðtoga starfsins jafnt sem þátttakenda.

Tónleikarnir í ár verða fimmtudagskvöldið 18. desember kl. 20:00 í safnaðarheimili Landakirkju en ekki þann 17. eins og áður hafði verið ráðgert og það vegna ófærðar. Miðaverð er kr. 2.000.- og miðasala er á Kletti og svo við innganginn.