Fyrsta sunnudag í aðventu, þann 30. nóvember nk. eru 90 ár liðin frá stofnun KFUM&K í Vestmannaeyjum. Til að fagna þeim tímamótum hyggst stjórn KFUM&K í Vestmannaeyjum ásamt Æskulýðsfélagi Landakirkju bjóða öllum velunnurum félagsins til poppmessu í Landakirkju sunnudagskvöldið 23. nóvember nk. kl. 20:00. Á svæðinu verða gamalkunn andlit sem leitt hafa starf félagsins undanfarin 20 ár eða svo ásamt því að 8 manna hljómsveit undir stjórn Gísla Stefánssonar æskulýðsfulltrúa leiðir söng. Á boðstólnum verða gömlu góðu æskulýðslögin sem vant var að flytja á þeim tímum er poppmessur voru reglulegur viðburður í Landakirkju. Gamalkunnugt andlit mun taka að sér predikun kvöldsins. Eftir messuna verður svo heitt á könnunni og léttar kræsingar í boði.