Vinnusími: 488-1501
Farsími: 856 1592

Heimasími: 481 1607

Netfang: klerkur(hjá)simnet.is

Sr. Kristján er fæddur í Stórholti 39 í Reykjavík 6. des. 1958. Hann er skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjum frá 1. sept. 1998, vígður á Hólum í Hjaltadal 9. júlí 1989 og var sóknarprestur Breiðabólsstaðarprestakalls í Húnavatnsprófastsdæmi, frá 1989 til 1998. Hann stundaði fullt starfsnám í klínískri sálgæslu, CPE, á Tampa General Hospital í Tampa á Flórída 2003-4 og var þar sjúkrahúsprestur. Nokkur námskeið tengd þjónustunni, m.a. um áfallahjálp og sorgarferli, prédikun, fjölskylduráðgjöf, upplýsingamiðlun, trúarbragðafræði og sáttargjörð. Embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands, stúdentspróf frá Menntaskólanum í Kópavogi og gagnfræðingur frá Víghólaskóla í Kópavogi.

Auk prestsþjónustunnar í Eyjum og safnaðarstarfsins er Kristján formaður Prestafélags Íslands, formaður Stafkirkjunnar á Heimaey, varaform. Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar og formaður NPS, sem er samstarfsvettvangur norrænna prestafélaga. Kristján er félagi í Frímúrarareglunni á Íslandi, Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja og Björgunarfélagi Vestmannaeyja.

Kristján er kvæntur Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, leikskólakennara, leiðsögumanni og starfsmanni Blátt áfram í Reykjavík. Guðrún Helga er af Seltjarnarnesinu, dóttir Bjarna B. Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra, sem er látinn, og Elínar G. Guðmundsdóttur, sjúkraliða. Börn: Ólöf, verkfræðingur í Reykjavík, Kristín Rut, doktorsnemi í sjálfbærni og ferðamálafræði í Lundi í Svíþjóð, Bjarni Benedikt, meistaranemi í verkfræði í Seattle í Bandaríkjunum, Sigurður Stefán, húsa- og húsgagnasmiður í Reykjavík, og Björn Ásgeir, skóladrengur. Foreldrar: Björn Sigurðsson, fv. lögregluvarðstjóri, frá Möðruvöllum í Hörgárdal, og Kristín Bögeskov, djákni, úr Reykjavík, en hún er látin.

Kristján hefur setið nokkur fjölþjóðleg þing og má nefna heimsþing Lútherska heimssambandsins í Hong Kong, kirkjuþing kirkjunnar í Kurhessen-Waldeck í Þýskalandi og málþing um kirkjulega upplýsingamiðlun í Danmörku og á Íslandi. Meðal fyrri trúnaðarstarfa má nefna setu í Kirkjuráði, á Kirkjuþingi, í stjórn Skálholts, í samráðshópi vegna Evrópusambandsumsóknar Íslands, í fulltrúaráði Hjálparstarfs kirkjunnar og ýmsum starfshópum og nefndum á vegum þjóðkirkjunnar og prestafélagsins, en auk þess var hann ritstjóri Kirkjuritsins í tæpan áratug og eitt ár formaður Prestafélags hins forna Hólastiftis. Áður hefur hann verið blaðamaður, vörubílstjóri, gæslumaður, stundakernnari, sumarlögregluþjónn í Reykjavík og starfsmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, verkamaður, hestamaður og hjálparsveitarmaður.