Sunday School Party Band lét sig ekki vanta í sunnudagaskólann sl. sunnudagsmorgun en sú sveit, sem í þetta skiptið var skipuð Birgi Nielsen, Kristni Jónssyni, Þóri Ólafssyni, Sæþóri Vídó, Jarli Sigurgeirssyni og Gísla Stefánssyni, flutti alla helstu sunnudagaskólaslagarana. Vel var mætt og mikil stemning, sérstaklega þegar talið var í Daníel og Rut þar sem karlpeningurinn sigraði með miklum yfirburðum, enda snýst þetta ekki um það hver syngur hæst heldur hver syngur fallegast.
Á sunnudagskvöldið var sungin messa með lögum David Bowie í Landakirkju. Messan var vel sótt en hátt í 200 manns voru í Landakirkju til að hlíða á. Þeir Ólafur Kristján Guðmundsson, Sæþór Vídó og Jarl Sigurgeirsson sungu lög meistarans en Messuguttarnir og brasssveitin Pípulagnirnar léku undir eins og vanalega í tónlistarmessum í Landakirkju. Þeir sr. Viðar Stefánsson og sr. Guðmundur Örn Jónsson sáu svo saman um helgihaldsþáttinn, en sr. Guðmundur predikaði á sinn einstaka hátt. Allt ætlaði um koll að keyra í lokin þegar Ólafur Kristján flutti Life on Mars? með miklum tilþrifum og krafti.
Í byrjun mars á næsta ári verður svo næsta tónlistarmessa, en hvað verður tekið fyrir þá hefur enn ekki verið ákveðið.