Eins og glöggir Eyjamenn og konur hafa tekið eftir hefur kirkjuklukkum Landakirkju verið hringt kl. 17:00 undanfarna daga og það í u.þ.b. 3 mínútur í senn. Er þetta gert í samræmi við beiðni Biskups Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur, til presta og sóknarnefnda þjóðkirkjunnar að minnast og biðja sérstaklega fyrir þolendum stríðsátaka í Aleppo í Sýrlandi. Í bréfi biskups segir m.a:

“Eins og fréttir herma er saklaust fólk limlest eða lætur lífið í stríðsátökunum í Aleppo í Sýrlandi þessa dagana. Ráðamenn virðast ekki geta fundið lausn til friðar og uppbyggingar. Það getur ekkert réttlætt þjáningar barna og óbreyttra borgara í Aleppo.

Hugmynd finnska prestsins Teemu Laajasalo í Kallio sókn í lútersku finnsku kirkjunni hefur orðið að veruleika. Honum sveið ástandið eins og okkur öllum og ákvað að klukkum í hans kirkju skyldi hringt daglega… Hér með hvet ég presta og sóknarnefndir til að hringja klukkum kirkna sinna frá mánudeginum 24. október kl. 17 í þrjár mínútur og daglega eftir því sem við verður komið til og með 31. október, sem er siðbótardagurinn.“

Klukkum Landakirkju verður því hringt áfram þessa viku kl. 17:00 til og með 31. október nk.