Æðsta boðorðið

Prédikun í Landakirkju 21. september út frá Markúsi 12 um hið æðsta boðorð. Sr. Kristján Björnsson: Fyrst tilraun til spámennlegrar prédikunar út frá þróun hagkerfisins og siglingu þjóðarskútunnar. Þá samanburður við þann fjársjóð sem við eigum í æðstu gildum og kærleiksboði Jesú Krists. Dæmi af söfnun fyrir mænuskaðaða og öðrum alvöru verkefnum í anda hinnar kristnu þjóðar. Hvað hefur hún fyrir stafni? Getur þessi þjóð endalaust sett Drottinn alsherjar út á spássíurnar?

Það gefst ekki tilefni til þess í dag að hjakka í einhverjum aukaatriðum. Nú er tekið til við æðsta boðorð alls Nýja testamentis og þess gamla og jafnvel æðsta boðorð í heimi manneskjunnar.
Það er merkilegt að hugsa út í það einmitt nú á tímum þegar heimsbyggðin öll hefur verið að hossast upp og niður eftir gengi fjármálastofnana og grípa andann á lofti þegar stóru skellirnir ríða yfir og sökkva í kaf. Þetta er í engu undarlegra en þegar heimsbyggðin öll horfði klumsa á hátoppa öldunnar rísa og fjölmarga svífa þar uppá eins og brimbrettakappa í algleymi sigurstundar. Þessar stundir hafa áður komið og þessi augnablik eiga eftir að endurtaka sig í framtíðinni. Við bíðum bara spennt eftir næsta stórstreymi svo fjörið geti byrjað að nýju. Það er ekki fyrir alla að renna brimbretti sínu inn í ólgandi svellandi iðuna og rísa síðan undir því, án þess að steypast á bólakaf í hvítfryssandi dúnmjúka löðrið. Mikið höfum við hin oft og lengi horft aðdáunaraugum á þessa kappa sem þorðu og gátu. En nú hafa veður skipast á lofti. Og það er einmitt á tímabilum sem þessum, þegar þjóðarskútan siglir kólgu á hafi úti en vindar þannig núna að rifa þarf seglin og halda þennan sjó. Ekki er gott að missa hana uppá, þessa elsku, að hún standi á grunni eða laskist í stórgrýttri fjörunni. Hafið er óblítt um þessar mundir. Og við þekkjum svona aðstæður um borð, ef mannskapurinn er ekki sama hugar, eða hrópar hver uppí annan, annað hvort að nú þurfi að komast til hafnar, sigla með landi eða kasta út rekankerum. Það veit ekki á gott ef sundurþykkjan nær tökum því þá er jafnan stutt í angistina og úrræðaleysið. Hér sem fyrr á árum, þegar einnig gerði viðsjál veður, er þessari áhöfn á þjóðarskútunni hin mesta lífsbjörg í því að ná að vinna sem einn maður að hverju sem helst má ætla að verði til bjargar. Það er blessuð þjóðarsáttin sem loksins er farið að tala um núna eftir erfið vetrarveður og öldukast í efnahagsmálum í sumar.

 

Hróp og köll

Það má öllum vera ljóst að hér dugar ekki skammsýni, ekki grunnhyggin hróp og köll, en heldur ekki óhóflegt æðruleysi ráðamanna. Það þarf að gefa mannskapnum um borð skýr mið svo okkar stolta fley verði ekki hoppandi koppur á annarra manna úthafi. Það þurfa hinir æðstu og hinir minnstu að ná saman um ef svo er komið að við lifum hér örlagaríka tíma eða einhvers konar ögurstundir eftir því sem fólkið segir. Þá þarf að vita hvenær á að venda, hvenær vinda upp hin hvítu tröf á rá svo grípa megi með því einhvern tiltekinn vind í seglin og svífa að því búnu þöndum segldúkum efnahagsvélarinnar í einhverja tiltekna átt.

Keisarans það sem keisarans er

Á slíkum tímum hugsum við til þess hvaða hugsjónir og lífsgildi búa í raun hjá þessari þjóð. Hvaða gildi eru æðst og mest og klárust að baki allri ákvarðanatöku, bæði í hinu andlega og hinu veraldlega tíðnisviði. Hvað er það sem á upp á dekk hjá þessari þjóð og hjá þeim líka er mestu valda í samtíð okkar í landinu góða?
Áður en við komum að megin atriði boðskaparins í dag, er rétt að skoða samhengið í orðum Jesú frá Nazaret, þeim er við helst erum að skoða í dag, hinu æðsta boðorði. Hér á undan færði ég í tal ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þar hef ég goldið keisaranum það sem keisarans er í einhvers konar tilraun til spámannlegrar prédikunar í eyru samlanda minna, þótt veikburða hafi þessi tilraun vissulega verið. En meistarinn er einmitt búinn að greina á milli hins keisaralega og hins guðlega, veraldlega og andlega. Þar áðan kallaði ég hástöfum á æðstu gildi og úrræði í því sem keisarans er. Og nú gæti virst heppilegt að hverfa inn til nokkurs konar köllunar eftir hinum æðstu andlegu og trúarlegu gildum sem við eigum sem kristin þjóð að langri menningarsögu.

Gorbatjof, Benjamín H.J. og Laxness

Það myndi vera hin hefðbundna aðferð 20. aldarinnar að greina algerlega á milli guðsríkisprédikunar og pólitískrar umræðu. Við nánari skoðun er þetta þó heldur geld framsetning og ef við erum alveg samkvæm sjálfum okkur, er þetta ekki heldur mjög aðlaðandi framsetning í umræðunni um hin æðstu gildi. Þessi fína skoðun þótti viðeigandi þegar við vorum á kafi í ísköldu pólitísku andrúmslofti eftirstríðsáranna og allt fram til falls Berlínarmúrsins á dögum Gorbatjefs. Mig minnir að einn af lærðustu hagfræðingum þjóðarinnar fyrr og síðar, dr. Benjamín H. J. Eiríksson, var talinn hafa misst áttir þegar hann fór allt í einu að tala um það sem úrræði í efnahagsmálum, að þjóðin þyrfti að auka trú sína á Guð. Þá myndi allt lagast en ekki að því slepptu. Það er einmitt hér sem við komum að kjarna málsins í þessari boðunarræðu fagnaðarerindisins um Jesú Krists á þessum Drottins degi, 21. september, Anno Domini 2008.
Eftir nær alla fréttatíma og eftir lestur flestra dagblaða sest að mér sú hugsun hvort það geti verið að hin æðstu gildi þessarar þjóðar séu öll á sviði viðskiptalífsins. Gengið upp og gengið niður. Vísitala upp og vísitala niður.
Til þeirra sem eiga þar mikið undir vil ég lauma heilræðavísu frá Halldóri Laxness, sem, eins og segir í Mogga þennan sunnudag, hafa ekki áður verið birtar:

Vart hins rétta verður gáð
villir mannlegt sinni,
fái æsing æðstu ráð
yfir skynseminni.

Haltu þinni beinu braut
ber þitt ok með snilli,
gæfan svo þér gefi’ í skaut
guðs og manna hylli.

Ómurinn af fjármálamarkaðnum og von um betri daga

Og þá aftur að hinni síbeljandi hljómkviðu af fjármálamarkaði suðandi í öllum fjölmiðlum. Þetta er í mínum eyrum einsog verið sé að flytja stöðugt nýjar fréttir af því að yfirborð hafsins eigi það til að ganga í bylgjum. Að í fjörunni skiptist á aðfall og útsog. Eða að öll okkar framtíð velti á því – hér í allri okkar vaðandi velmegun til lengri tíma litið – hvort gengi einstakra hlutafélaga sé á uppleið eða niðurleið. Fæst okkar fóru út á brimbrettið og svifu hvað hæst þegar öldurnar voru sem glæstar. Fæst okkar eiga því allt sitt undir eða eru líkleg til að steypast um koll þegar hvítfryssandi öldutoppurinn hvelfist yfir sjálfan sig í tígulegum boga nær ströndu. Vitaskuld vona ég að hjólin fari aftur að snúast eilítið hraðar sem fyrst og við komumst sem fyrst út úr þeim hremmingum sem efnahagslífið hefur verið að ganga í gegnum síðustu misseri og núna hvað verst allra síðustu vikur. Vitaskuld vona ég að þeir sem staðið hafa brettin þarna úti fyrir ströndinni okkar hinna og farið mikinn á glæsilegri siglingu sinni renni sér áfram tígurlega á þessu svifi og komi standandi niður að því marki sem þeir hafa sett sér. Þetta er ekkert góður tími fyrir verslun og viðskipti um allan heim. Þetta er að verða afleitur tími fyrir skuldug heimili landsins.

Söfnun fyrir mænuskaðaða

Það sem leitar þó hvað harðast á hugann er ennþá þessi sama spurning, spurningin um æðri gildi en þessi viðskiptalegu. Hver eru sjálf lífsgildin? Þau eru fyrir það fyrsta alls ekki í ytri umgjörð, gæfu eða gjörvileika. Hin æðstu gildi hvers manns eru þau gildi sem ráða því hvar hjartað hans slær. Það kom t.d. frábærlega í ljós á föstudagskvöldið var í söfnun fyrir mænuskaðaða. Þá kom í ljós hver þau gildi eru sem eru æðst og mest hjá þessari þjóð. Það er kærleikurinn og krafturinn að láta gott af sér leið og efla hag náungans. Og forvígismaðurinn lofaði Guð fyrir allt það góða fólk sem gaf og fyrir styrkinn sem hann gefur. Yfir 65 milljónir söfnuðust þegar allur almenningur braut upp sparibaukana sína til að efla rannsóknir og lækningar í þágu mænuskaðaðra. Hismið var algjörlega lagt til hliðar. Sjálfur þulurinn í fjáröflunarþættinum lét sig hafa það að stökkva út í sundlaugina á grágljáðum jakkafötum sem hann var nýbúinn að láta bjóða í fyrir á þriðja hundrað þúsund króna. Hismið er algjört bíbb einsog Ólafur Stefánsson handboltafyrirliði myndi segja. Gildin eru miklu hærra metin. Jakkafötin skiptu engu máli þegar upp var staðið. Hugur gefenda var næstum því undirstrikaður með þessum gjörningi.

Fjársjóðskistan og hjartað mitt

Og hér talar líka inní þessar aðstæður, texti sá sem er á fjársjóðskortinu í sunnudagaskólanum. Þetta haustið snýst allt um fjársjóðinn, fjársjóðsbækur og –kistur. Mjög skemmtilegt efni og það varð heldur betur upplit á krökkunum þegar bækurnar og þemað var kynnt. Loksins farið að tala um eitthvað sem skiptir máli í þessum sunnudagaskóla, fjársjóð og kannski sjóræningja! Eða eins og einn peyinn hrópaði þegar hann mætti í fyrsta sinn: „Vá, sjóræningjagullkista!“ Textinn er á þessa leið: „Þar sem fjársjóður þinn er þar mun hjarta þitt líka vera.“
Og nú erum við aftur komin að kjarna þessa máls. Hann hverfist á endanum um það sem er mikilvægast í huga og hjarta. Það sem aldrei víkur úr huganum. Það sem okkur er lagt á hjarta. Það sem við notum sem mælistiku á það hvernig við metum allt annað í þessu lífi. Það er minnt á það í dag með orðum Jesú Krists: „Æðst er þetta: Heyr Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“

Já, heyrið þetta, lýður Guðs, þið sem glímið við Guð og gangið jafnvel í dóm við hann. Það er það sem átt er við með ávarpsorðunum: „Heyr Ísrael!“ Þau koma fyrir í fimmtu Mósebók og eru nefnd sjueva upp á hebresku. Þessi ávarpsorð eru inngangurinn þar að öllum sáttmála þeim er Guð hefur gert við Hebreana en eins og við munum þá merkir orðið Ísrael, sá maður sem glímdi við Guð. Það kom til sögunnar þegar Jakob glímdi við Drottinn í lífi sínu og hann glímdi við mann einn lengi nætur og vildi ekki gefa eftir, en hann var mjög fylginn sér.

Guðs hús á grýttri leið

Nú þarf þessi þjóð að gera eins og hagfræðingurinn sagði um árið og fara að trúa á Guð og treysta honum. Þessi þjóð þarf að hætta að beita hér aflsmunum í glímu sinni við þennan heim. Þessi þjóð þarf að finna hvar hinn eiginlega fjársjóð er að finna, lúta Guði sínum og reisa honum altari, rétt eins og Jakob, þá nefndur Ísrael, gerði þegar hann áttaði sig á þessari stöðu sinni frammi fyrir Guði, á þeim stað sem eftir það var nefndur Betel, hús Guðs. Það gengur ekki lengur að setja Drottinn alsherjar svona endalaust út á spássíurnar á öllum blöðum og pappírum. Hér er nú komið að þeirri ögurstundu í lífi þjóðarinnar og þá líka samfélagsins hér í Eyjum, að við gerum ekki aðeins eitt hús að húsi Guðs. Öll okkar hús eiga að vera hús Guðs. Á þennslutíma steypum við upp heilu hverfin af Guðshúsum. Á samdráttarskeiði gerum við eins og segir í sálminum góða: „Guðs hús á grýttri leið, glaður ég hleð.“ Já, „Hver og ein hörmung mín hefur mig, Guð, til þín, hærra minn Guð, til þín, hærra til þín.“