Hér í prédikun sr. Kristjáns Björnssonar í Landakirkju 15. júní 2008, er lagt út af orðum Jesú í fjallræðunni: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða.“ Talað er um dómhörkuna og sleggjudóma, en líka fordóma, t.d. í garð innflytjenda.

Þá er hér að finna sögu af reynslu minni af notkun textans í sögugöngu á Vatnsnesi um árið, er þeirra Agnesar og Friðriks var minnst í ljósi þessara orða Jesú. Ein af ályktunum mínum er að hægt sé að umorða versið og segja, í stíl við sæluboðin: „Sælir eru þeir sem dæma ekki, því þeir munu sýknaðir verða.“ Er söfnuðurinn síðan byggður upp í því að ástunda góð verk trúarinnar og vera miskunnsamur. Tekið er fagurt dæmi af framtaki Nínonanna í siglingu fyrir Kraft í kringum landið.
Fjórða sunnudag eftir þrenningarhátíð er að finna einn af mikilvægari guðspjallstextum Nýja testamentis, en hann er einmitt þekkur fyrir upphafssetninguna: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða.“ Reyndar held ég að flestir segi: „Dæmið ekki svo þér verðið ekki dæmdir.“ Það er nokkur munur þarna á, þó að ég sé ef til vill ekki besti maðurinn til að dæma um það. Í nýjustu þýðingunni er ekki dæmt um það hvort tilheyrendur eru allir karlar eða hvort þar eru líka konur sem tala má til. Þar segir því: „Dæmið eigi og þér munuð eigi verða dæmd.“

Það er ekki erfitt að finna dæmi um dómhörku í garð náungans á okkar tímum. Það eru bókstaflega allir dæmdir og lang flestir dómarnir eru felldir án þess að nokkur sá sem í hlut á fái rönd við reist. Sleggjudómarnir eru líklega flestir og þar á eftir koma dómar fjölmiðlanna og dómur almannarómsins. Við bókstaflega dæmum alla eftir útlitinu og dæmum allt eftir fyrstu sýn. Svo koma hinir hörðu dómar skoðanakúgunar eða dómar hins pólitíska rétttrúnaðar, en það eru líklega með hættulegustu dómum samtímans, enda er þar komið afar nærri því að dæma um hugsjónir manna og hugmyndafræði. Dómar, sem felldir eru vegna skoðanna fólks, eru því tilraun til að stjórna hugsun fólks og hugmyndum. Það er býsna hættulegt fyrirbæri og ætti að verja það öllum ráðum að fólki sé yfirleitt heimilt að hafa skoðanir og jafnvel að halda þeim á lofti, enda á þeim kaflanum komið að spurningunni um tjáningarfrelsi.
Nú las ég reyndar einn ágætan fyrirlestur um það hvort fólki væri alltaf stætt á því að hafa skoðun. Spurningin var um það hvort allar skoðanir ættu rétt á sér og kom þar að sjálfsögðu að varnarmúr þeirra sem skoðanir eins manns geta skaðað annan verulega eða orðið til að niðurlægja þá sem skoðanirnar beinast að. Þar eru líklega komin mörk sem Drottinn dregur hér líka í dag, að við dæmum ekki aðra. Sú kenning gæti til dæmis verið skýringin á þeirri réttlætiskennd sem rís oft og iðulega þegar fólki finnst vegið að þeim sem flutt hafa til landsins og gerst innflytjendur Íslands. Flóttamannahjálpin á stundum bandamann í þessari réttlætistilfinningu fólksins þegar annars vel meinandi menn fara að tala um að Ísland sé fyrir Íslendinga eða að ekki sé pláss fyrir innflytjendur eða eitthvað í þá veru, en jafnvel íað að því að útlendingar eigi ekki að taka atvinnu af landanum eða eitthvað í þá veru. Þessi réttlætiskennd er rétt af því að við sjáum að slíkar skoðanir eru einmitt á mörkum þess að eiga rétt á sér. Það er ef til vill ekki bara spurningin um það hvort skoðanir gegn ákveðnum þjóðfélagshópum séu réttlætanlegar, heldur er það meira spurningin um það hvort þær séu ekki einfaldlega bandvitlausar. Það er ekki svo íkja langt síðan landnámsmennirnir voru innflytjendur í þessu landi og allar götur síðan hefur innflytjendum verið tekið opnum örmum. Um suma hópana er talað með aðgreiningu af því að þeir eru það stórir eða einkennandi á einhvern sérstakan hátt. Þar er mikill munur á umræðunni hvort við erum að tala í máli okkar til aðgreiningar eða hvort við erum að tala til aðskilnaðar eða sundrungar. Það verður ekki annað séð af öllum okkar menningararfi, sem að mestu er gagnsýrður kristinni trú, en þessi umræða um aðgreinanlega þætti mannlífsins sé með öllu eðilileg. Nægir að vitna í Ernst Hemmingway sem sagði að allir væru frá einhverjum stað. Það er til dæmis aðgreining. Saga fólks er líka aðgreining í umræðunni en langt í frá tilraun til aðskilnaðar eða flokkunar. Eins og bent hefur verið á nýlega með útkomu einnar bókar hér í bæ, eru líklega flest viðurnefni dregin á einn eða annan hátt af uppruna mannsins. Hann er kenndur við móður eða hús eða land eða landshluta sem hann kemur frá, nú eða í sumum tilfellum, lönd sem hann hefur komið til, en það er nú önnur saga. Sjáið til dæmis Nínonana sem eru að vinna eitt merkilegt miskunnarverk og sigla í kringum landið að safna fyrir Kraft. Það er enginn smá kraftur í því, hvort sem litið er til bátsins, karlanna, eða málefnis. Megi Drottinn vera með þeim í þeirri för og við biðjum sannarlega fyrir þeim á siglingunni. Það er ljóst að í þessu dæmi eru kapparnir kenndir við móður sína á einstaklega fallegan hátt, sem sýnir baklandið þeirra og tengingu við svo marga, að ekki sé minnst á orðstýr þann sem fer á undan þeim fyrir hreysti og dug í lífi sjómannsins. Þetta er enda í anda þessa kafla guðspjallsins. „Gefið, og yður mun gefið verða.“
Við eigum ekki að dæma. Það er ekki alveg í sama anda og gullna reglan, sem er mun vinsælli lífsspeki hjá okkur en reglan um dóminn. Það er ekki rétt þýðing að hvetja okkur til að dæma ekki svo að við verðum ekki dæmd. Orð Drottins ganga að venju lengra mannlegri hugsun þegar hann segir beinlínis að ef við dæmum ekki, þá verðum við ekki dæmd. Munurinn liggur í því að í fyrri og almennari útgáfunni er settur í það tilgangur eða ætlaður ávinningur sem verður að mótívi mannsins til að dæma ekki annað fólk. Í setningu Drottins er þetta boðorð. Þið skuluð ekki dæma. Það er sett fram í samhengi fjallræðunnar og er í svipuðu formi og sæluboðin á þennan hátt. Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Það er ekkert í þessu sem segir að þótt við breytum rétt frá degi til dags muni réttælti heimsins koma fram við okkur á samri stundu eða í sama mæli. Hér gæti meira að segja legið að baki sú hugsun að við verðum ekki fyrirdæmd á hinum efsta degi fyrst við vorum svona nokkurn veginn laus við að dæma og fordæma í samtíðinni okkar. Við gætum jafnvel orðað þetta á sama hátt og sæluboðin, sem hann segir þarna rétt á undan í Fjallræðunni: „Sælir eru þeir sem dæma ekki, því þeir munu sýknaðir verða.“ En þá þurfum við líka að skoða samhengið á undan og á eftir í þessum ræðukafla. Þar er líka að finna boðorð sem styðja þessa ályktun. „Verið miskunnsamir eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ Og á eftir: „Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelld verða. Sýknið, og þér munuð sýknuð verða.“

Þessi guðspjallstexti hefur verið mér einstaklega hugleikinn í gegnum tíðina. Ást mín á honum hefur ekki dalað eftir því sem ég kynnist fleiri dómhörðum mönnum. Og því miður er mörg dómharkan í munni þeirra sem lýsa sig heittrúa og jafnvel bókstafstrúa. Og þeir hafa margir hlaupið yfir þennan kafla í lífi sínu. Og því miður á það líka við um þá sem hafa fundið hjá sér hvatir til að gagnrýna kirkjur og trúfélög annarra og jafnvel sína eigin kirkju, með ómaklegum hætti og án þess að þekkja til. Ekki ætla ég að fara að auglýsa þeirra sjónarmið með því að rekja þá harmasögu, en bið þess að þeir hlýði boðorði Drottins um að dæma ekki. Þeirra dómur verður þá ef til vill vægari er þeir mæta skapara sínum að lyktum, þótt um þann dóm getum við lítið dæmt núna. Við sjáum nefnilega ekki bjálkana í augum okkar sjálfra, þótt við þykjumst þess albúin að bjóðast til að draga flís úr auga annars.
Ein sterkasta reynsla mín af þessum kafla var án efa í göngferð um söguslóð norður á Vatnsnesi. Þar komum við, eins og ákveðið var, í Tjarnarkirkju, en þarna er sögusvið atburða sem leiddu til síðustu aftöku dæmdra manna á Íslandi uppúr miðri 19. öldinni. Voru þau tekin af lífi, Agnes og Friðrik Sigurðsson, en hann var Vatnsnesingur og á Vatnsnesi bjó líka Natan Ketilsson, er myrtur hafði verið. En þessir sakborningar, Agnes og Friðrik, höfðu verið vegin á dómsstaðnum að Þrístapa í Þingi og hlutu ekki viðeigandi útför í vígðri mold þá. Um einni öld síðar höfðu jarðneskar leyfa þeirra verið fluttar í kirkjugarðinn að Tjörn, en þau þannig jarðsett þar án almennrar guðsþjónustu. Ekki stóð annað til en hafa stutta helgistund með ferðmönnum og sveitungum í þessari sögugöngu, en það breyttist á staðnum. Við vorum öll saman í þessari sögu. Þegar ég gekk fyrir altarið fletti ég upp í handbókinni til að velja þar texta að leggja út af. Það hafði hvarflað að mér að nota bara þennan texta: „Dæmið ekki.“ En ég lagði ekki alveg í það í söguþrunginni dagskrá með svo mikið drama og að auki frændfólk Friðriks og Natans og sveitunga þótt meir en 160 ár skildi á milli í tíma. Það var allt eins og gerst hafði deginum fyrr. Í handbókinni kom ég að fjórða sunnudegi eftir þrenningarhátíð og þar kallaði kaflinn á mig: „Dæmið ekki.“ Var það reyndar eftir hliðstæðunni hjá Matteusi í sjöunda kafla. Ekki var laust við að ég yrði hugsi yfir þessum örlögum sem ég virtist ekki geta flúið, en þar sem ekki var sunnudagur hugsaði ég með mér að ég hefði nú eitthvert frelsi að velja annan léttari texta. Greip ég þá Biblíuna af altarinu en þar sem ég opnaði hina helgu bók las ég mér til undrunar: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða.“ Má nærri geta að prestur þurfti að taka á öllu sínu og tala út frá þessum magnþrungnu raunverulegu aðstæðum í sögu og samtíð og yfir til hinnar eiginlegu – og nánast verklegu – sáttargjörðar, fyrirgefningar og friðar. Að þeirri eftirminnilegu stólræðu lokinni leiddi ég söfnuðinn út að lágreistu leiði þeirra og þar var loks haldin hin opinbera útfararguðsþjónusta yfir sveitungum tveim í friði.

Og ég spyr sjálfan mig: Hvað erum við að dæma? Því skyldum við ekki einfaldlega keppast við að fyrirgefa og horfa þá til þess sem Jesús Kristur gerði og kenndi og vildi að við myndum ástunda nótt og nýtan dag. Sannaði hann ekki kraft fyrirgefningarinnar með því að ganga í dauðann fyrir manninn og sannaði hann ekki guðdóm sinn með því að sigra sjálfan dauðann og rísa upp frá dauðum. Og þegar öllu er á botninn hvolft þá er ekki neitt svo óskaplega langt síðan hann vann þetta miskunnarverk til frelsunar fyrir allt mannkyn. Minnumst þess í trú og góðum verkum trúarinnar nú og ævinlega meðan við lofum Drottinn af sálu og lífi.

Já, verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur, en fyrir þá miskunnsemi, sáttargjörð og frið, sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda.